Jen Psaki, blaðafulltrúi Hvíta hússins, greindi frá því í dag að takmarkanirnar tækju gildi aðfaranótt þriðjudagsins 4. maí. Með þeim yrði flestum ferðalögum sem eru ekki bandarískir borgarar bannað að koma til Bandaríkjanna hafi þeir dvalið á Indlandi innan fjórtán daga fyrir komu.
Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna (CDC) vísar til gríðarlegs fjölda smita á Indlandi um þessar mundir og nokkurra mismunandi afbrigða veirunnar sem eru þar í dreifingu. Sambærilegar takmarkanir eru þegar í gildi fyrir fólk sem hefur verið í Suður-Afríku, Brasilíu, Bretlandi, Írlandi og 26 Evrópuríkjum sem leyfa frjálsa för yfir landamæri sín.
Fleiri en 300.000 manns hafa greinst smitaðir á Indlandi á hverjum degi undanfarna níu daga í röð. Fjöldinn náði 386.352 í dag en talið er að raunverulegur fjöldi smitaðra sé enn hærri vegna takmarkaðar skimunar sem fer fram í landinu. Að minnsta kosti rúmlega 200.000 manns eru látnir og hátt í nítján milljónir hafa greinst smitaðar. Sérfræðingar telja að raunverulegu tölurnar gætu verið allt frá fimm til tíu sinnum hærri en þær opinberu, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Fyrr í vikunni ráðlagði bandaríska utanríkisráðuneytið borgurum sínum að forðast ferðalög til Indlands og að snúa þaðan sem fyrst ef þeir væru þar staddir.