„Það verður líflegt í Höllinni,“ segir Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. „Við erum undirbúin; allir búnir að stilla saman strengi.“
Á morgun fá tíu þúsund manns bóluefnið frá Pfizer. Í mörgum tilvikum verður um að ræða seinni skammt af bóluefninu. Þá verða sex þúsund einstaklingar fullbólusettir með bóluefninu frá Janssen á miðvikudag, þar sem það er gefið í einum skammti en ekki tveimur.
Á fimmtudag verða svo gefnir um 2.400 skammtar af bóluefninu frá Moderna.
Boð í bólusetningar vikunnar munu berast í dag og næstu daga og allir verða að mæta með grímu og skilríki. Þá er mælt með því að fólk sé í stuttermabol, þar sem sprautað er í upphandleggsvöðva.
Heilsugæslan býður nú upp á þann valmöguleika að afþakka með öllu bólusetningu, óháð bóluefni. Það er hægt að gera með því að senda nafn og kennitölu á póstfangið bolusetning@heilsugaeslan.is.