Þetta er í fyrsta sinn síðan tímabilið 1990-91 sem KR vinnur ekki leik í fjórum heimaleikjum í röð. Þetta er líka jöfnun á óvinsælu félagmeti því KR hefur aldrei tapað fleiri heimaleikjum í röð í úrvalsdeild karla (frá 1978).
KR tapaði í gær 83-85 á móti Grindavík þar sem Ólafur Ólafsson skoraði sigurkörfuna með skoti frá miðju eftir að hafa stolið boltanum eftir innkast KR-inga.
Þetta var annar heimaleikurinn í röð þar sem KR setur upp lokasókn leiksins en tapar svo boltanum og andstæðingurinn skorar dramatíska sigurkörfu af löngu færi.
KR tapaði einnig með svipuðum hætti á móti Haukum á dögunum. Áður hafði KR-liðið tapað heimaleikjum á móti Val og Þór Akureyri en þeir fóru fram fyrir síðasta kórónuveirustopp.
Síðasta fjögurra leikja taphrina KR á heimavelli í úrvalsdeildinni kom í nóvembermánuði árið 1990 þegar liðið tapaði fjórum í röð á móti Grindavík, Tindastól, Keflavík og Njarðvík. KR-liðið lék þá heimaleiki sína í Laugardalshöllinni. KR svaraði taphrinunni með því að vinna sex síðustu heimaleiki sína á leiktíðinni.
Darri Freyr Atlason er þjálfari KR-liðsins í dag en hann fæddist í júnímánuði 1994. Þjálfari KR-inga var því ekki fæddur þegar Vesturbæjarliðið tapaði síðast fjórum heimaleikjum í röð og í raun voru enn 42 mánuður í fæðingu hans þegar KR tapaði síðast fjórum leikjum í röð.
Næsti heimaleikur KR-liðsins, og sá síðasti á leiktíðinni, er á móti ÍR-ingum eftir eina viku.
Flestir tapleikir KR í röð á heimavelli í úrvalsdeild karla:
- 4 - 2020-21
- 4 - 1990-91
- 4 - 1980-81
- 3 - 1996-97
- 3 - 1992-93
- 3 - 1985-86
- 3 - 1984-85
- 3 - 1982-83