Fótbolti

Hazard bað stuðningsmenn Real Madrid afsökunar á hegðun sinni á Brúnni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eden Hazard var keyptur til Real Madrid sem næsta stórstjarna liðsins en það hefur verið lítið að frétta af honum inn á vellinum síðan.
Eden Hazard var keyptur til Real Madrid sem næsta stórstjarna liðsins en það hefur verið lítið að frétta af honum inn á vellinum síðan. EPA-EFE/Neil Hall

Belgíski knattspyrnumaðurinn Eden Hazard þurfti að skrifa afsökunarbeiðni á Instagram eftir framkomu sína í hópi leikmanna Chelsea eftir að Real Madrid datt út úr undanúrslitum Meistaradeildarinnar.

Það hefur gengið allt á afturfótunum hjá Eden Hazard síðan hann var keyptur til Real Madrid. Meiðsli og slök frammistaða hafa einkennt tíma hans á Spáni og nú síðast gekk hann fram af stuðningsmönnum Real með framkomu sinni eftir að liðið datt út úr Meistaradeildinni á miðvikudagskvöldið.

Real Madrid tapaði leiknum 2-0 og Eden Hazard gerði lítið sem ekkert í leiknum. Eftir leikinn sást hann hins vegar hlæjandi með Chelsea mönnunum Kurt Zouma og Edouard Mendy út á velli. Myndavélarnar voru fljótar að finna þá félaga en Hazard hafði litlar áhyggjur af því.

Hazard var leikmaður hjá Chelsea og þessir þrír eru augljóslega góðir vinir. Þetta var hins vegar enginn tími fyrir að rækta vináttuna við leikmenn sem voru nýbúnir að henda honum og restinni af Real Madrid liðinu út úr Meistaradeildinni.

Áður en Eden vissi af þá var þetta orðið stórmál á Spáni og stuðningsmenn Real Madrid voru brjálaðir. Meistaradeildin skiptir spænska félagið gríðarlega miklu máli og það var ekki eins og Belginn ætti mikið inni hjá þeim.

„Ég biðst afsökunar. Ég hef lesið mikið af tilfinningaríkum færslum um mig í dag og það var ekki ætlun mín að móðga stuðningsmenn Real Madrid. Það hefur alltaf verið draumur minn að spila fyrir Real Madrid og ég kom hingað til að vinna. Þetta tímabil er ekki búið og við þurfum að berjast saman fyrir því að vinna deildina,“ skrifaði Eden Hazard á bæði ensku og spænsku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×