Breytingin er meðal annars gerð í ljósi upplýsinga úr nýju líkani Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE) sem kynnt var í síðustu viku. Þetta kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu en þar segir að þetta sé gert til að ná samhliða bólusetningu þvert á aldurshópa og ná þannig fyrr hjarðónæmi í samræmi við niðurstöðu ÍE.
Nú hafa um 140 þúsund einstaklingar fengið minnst einn skammt af bóluefni hér á landi. Er það um 48% þeirra sem áætlað er að bólusetja.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hafði áður gefið út að líklega yrði farið dreift í aldurshópana eftir að bólusetningu forgangshópa væri lokið. Þá hefur Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir einnig tekið vel í hugmyndina.
Hniki boðun til um tvær vikur að meðaltali
Svandís sagði á þriðjudag að bólusetning með slembiúrtaki myndi að jafnaði flýta eða seinka bólusetningu einstaklinga um tvær vikur samanborið við fyrra fyrirkomulag þar sem boðað var eftir aldri.
Um 51 þúsund manns hafa nú verið fullbólusettir gegn Covid-19 og áfram stendur yfir bólusetning einstaklinga með undirliggjandi sjúkdóma (hópur 7). Í vikunni hófst svo bólusetning starfsmanna leik- og grunnskóla og flug- og skipsáhafna (hópur 8) og enn fremur einstaklinga í félagslega viðkvæmri stöðu (hópur 9).
Samhliða því hefur einstaklingum í hópi 10 verið boðin bólusetning en þeim hópi tilheyra allir sem ekki eru í forgangshópi. Stærsti bólusetningadagurinn til þessa fór fram í gær þegar 17.111 einstaklingar fengu ýmist sinn fyrri eða seinni skammt.