„Ég lít á þetta sem mjög gott stig á erfiðum útivelli, eftir að við misstum mann af velli í hálfleik duttum við mjög aftarlega á völlinn, við ætluðum að halda þessu í 0-0 inn í hálfleikinn en fengum á okkur skíta mark," sagði Sigurður Egill
„Í fyrri hálfleik hefði ég viljað sjá okkur vera kaldari á boltanum og þora meira, í hálfleik áttum við góðan fund sem gerði það að verkum að við vorum betri aðilinn í seinni hálfleik."
Haukur Páll Sigurðsson fékk beint rautt spjald þegar hann var að taka aukaspyrnu og sparkaði þar af leiðandi í Jónatan Inga sem var búinn að pota í boltann.
„Þetta var mjög sérstakt, Haukur Páll ætlar að taka spyrnuna fljótt, Jónatan pikkar í boltann og þá bombaði Haukur í hann, sem var full hart í mínum bókum," sagði Sigurður Egill sem átti eftir að sjá atvikið aftur.
Sigurður Egill jafnaði leikinn fyrir Val sem á endanum tryggði þeim stigið, Sigurður hefur verið duglegur að skora á móti FH sem hann var full meðvitaður um.
„Andri á góða fyrirgjöf, Johannes Vall er í barning sem endar með að hann er straujaður niður, hefði líklegast verið víti en boltinn datt fyrir mig og ég lagði hann í netið."
„Ég á alltaf góða leiki á móti FH sem vonandi heldur áfram," sagði Sigurður léttur um eigin frammistöðu.
Sigurður Egill var mjög ánægður með liðið í kvöld sem tók stig á erfiðum útivelli og fara Vals menn jákvæðir inn í næsta verkefni sem er gegn HK á heimavelli.