Í nýjustu þáttum Kompás er fjallað um skipulagða glæpastarfsemi og ógnina af þeim. Kompás fékk að slást í för með lögreglu þegar hún stöðvaði umfangsmikla kannabisverksmiðju í kjallara í fjölbýlishúsi í Reykjavík. Íbúar urðu einskis varir því búnaðurinn kom í veg fyrir að lykt bærist um húsið. Þá var verksmiðjan nánast sjálfvirk. Ágóðinn hefði hlaupið á tugum milljóna.
„Hérna geta menn fengið uppskeru á þriggja mánaða fresti og gríðarlegur peningur og ávinningur fyrir aðra sem eru í þessu í fullu starfi,“ sagði leynilögreglumaður á vettvangi sem Kompás ræddi við.
Lögreglan bendir á að glæpahópar noti ágóða af kannabisræktun til að fjármagna alvarlegri glæpi. Sektaramminn gerir ráð fyrir sektum fyrir hverja plöntu upp á 100 þúsund krónur. Ræktendur sjá því hag í að fá meira úr hverri plöntu.
„Þú sérð að þú ert með stórar og flottar plöntur sem eru komnar í blómstrun. Plöntu fjöldinn í hverju rými er ekkert svakalegur. Menn eru alltaf að verða betri og betri í þessu og geta fengið mun meira úr hverri plöntu en menn gerðu áður.“
Rannsóknarlögreglumaður á vettvangi sem rætt var við telur dóma ekki nógu þunga.
„Og gleymist í umræðunni. Hversu miklir fjármunir og ágóði er á þessu. Menn horfa bara oft á þetta sem gras eða kannabis.“