Steinbergur var fyrst um sinn lögmaður rúmlega fertugs Íslendings sem var um tíma í gæsluvarðhaldi á meðan rannsókn málsins stóð. Embætti héraðssaksóknara hefur nú ákært fjóra, þrjá karla og eina konu, vegna Rauðagerðismálsins, en Íslendingurinn umræddi er ekki meðal þeirra.
Steinbergur var settur af sem verjandi Íslendingsins og fékk stöðu vitnis við rannsókn málsins. Íslendingurinn sætti farbanni vegna málsins og var meðal fjórtán sakborninga í málinu, en fjórir þeirra hafa verið ákærðir.
„Forsenda fyrir gæsluvarðhaldi, húsleit, farbanni og alls kyns fjölmiðlayfirlýsingum dögum og vikum saman verður að vera rökstuddur grunur um saknæmt athæfi. Ekkert slíkt fannst. Umbjóðandi minn var með fjölskyldu sinni úti á landi þegar atburðurinn átti sér stað og kom þar einfaldlega hvergi nærri,“ segir Steinbergur.
Hann segir lögreglu hafa haldið uppi „leiktjöldum“ löngu eftir að rannsóknin hafði veikt grunsemdir til muna.
„Meðal annars á blaðamannafundi þar sem enn var gefið í skyn að umbjóðandi minn tengdist morðinu með einhverjum hætti. Á sama tíma var hann líka sviptur lögmanni sínum með bellibrögðum lögreglunnar - fullkomlega að ástæðulausu eins og ljóst var allan tímann,“ segir Steinbergur.
Hann segir það liggja í augum uppi að umbjóðandi hans muni leita réttar síns.
„Hvorki lögreglan né réttvísin í heild sinni á að geta leyft sér vinnubrögð af þessu tagi án þess að svara fyrir þau á réttum vettvangi.“