Samkvæmt tilkynningu Hvíta hússins sagðist Biden „styðja rétt Ísraels til að verja sig“ en lýsti yfir áhyggjum af dauðsföllum, bæði í Ísrael og Palestínu. Þá kallaði hann eftir því að blaðamönnum yrði veitt vernd eftir að bygging sem hýsti meðal annars skrifstofur AP og Al Jazeera var sprengd í loft upp.
Staðan hefur versnað með degi hverjum og hefur alþjóðasamfélagið kallað eftir því að árásirnar taki enda. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna mun funda á morgun til þess að ræða stöðuna og hefur Hady Amr, sendiherra Bandaríkjanna, ferðast til Ísraels til þess að taka þátt í viðræðum Ísraela, Palestínumanna og embættismanna Sameinuðu þjóðanna.
Samkvæmt yfirvöldum í Palestínu hafa 145 látið lífið þar frá því á mánudag og tíu í Ísrael. Að sögn palestínskra yfirvalda er 41 barn meðal hinna látnu þar.