Fótbolti

Færa til leiki Real og Atletico í lokaumferðinni vegna Eurovision

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sergio Ramos og félagar í Real Madrid geta unnið spænsku deildina annað árið í röð.
Sergio Ramos og félagar í Real Madrid geta unnið spænsku deildina annað árið í röð. Getty/Denis Doyle

Mótanefndin hjá La Liga hefur gengið illa að festa leiktímann á leikjum toppliðanna í lokaumferð deildarinnar og hefur nú þurft að gera enn ein breytinguna.

La Liga færði leiki lokaumferðarinnar til í þriðja sinn á hálfum sólarhring og að þessu sinni voru ástæðurnar Eurovision söngvakeppnin á laugardalskvöldið og komandi úrslitaleikur Evrópudeildarinnar í næstu viku.

Atletico Madrid og Real Madrid geta bæði orðið spænskur meistari um helgina en Barcelona á ekki lengur möguleika á titlinum eftir tap um helgina.

Atletico Madrid er með tveggja stiga forystu og nægir sigur á Real Valladolid á útivelli til að tryggja sér titilinn. Real Madrid þarf að vinna Villarreal á heimavelli og treysta á það að Atletico tapi stigum.

Þessir tveir leikir áttu fyrst að fara fram á sunnudagskvöldið en Villarreal mótmælti því af því að liðið er að fara að spila til úrslita um Evrópudeildarbikarinn á móti Manchester United á miðvikudagskvöldið í næstu viku.

Leikirnir voru því færðir á laugardagskvöldið en það þurfti síðan að flýta þeim svo þeir væru ekki á sama tíma og Eurovision söngvakeppnin.

Nú er því ljóst að leikir toppliðanna fara nú fram klukkan 18.00 að staðartíma á laugardaginn en söngvakeppnin hefst síðan þremur klukkutímum seinna.

Villarreal fær því auka sólarhring til að undirbúa sig fyrir úrslitaleikinn á móti Manchester United.

Leikir verða báðir í beinni á stöðvum Stöð 2 Sport og hefst útsendingin klukkan 15.55 að íslenskum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×