Hanna Björg Vilhjálmsdóttir hefur haft veg og vanda af kynjafræði í skólanum frá 2007, þegar skólinn varð fyrstur framhaldsskóla til að bjóða upp á greinina sem valáfanga. Nú, fjórtán árum síðar, fara hátt í 80% allra nemenda Borgó í gegnum kynjafræði. Þeir eru um 1.100 eins og stendur.

„Þetta er orðið svo mikið að við erum tvær að kenna þetta,“ segir Hanna Björg, sem tók þó við fyrsta skylduhópnum úr iðnnámi í vetur.
Áhugaverðast þar er auðvitað að hópurinn samanstendur næstum því alfarið af strákum. „Þeir voru sumir svolítið skrýtnir í framan,“ segir Hanna og hefur eftir einum efasemdarmanninum: „Ég ætla að vera bifvélavirki. Hvað í fjandanum er ég að gera í kynjafræði?“
Það var þannig töluverð áskorun að lempa drengina en þar kom að þeir sáu margir ljósið, eins og Hanna orðar það. „Þeir skrifa skýrslu og gera upp áfangann í lok annar og veistu, gullmolarnir sem ég er að lesa eftir þessar elskur.“
Þannig segjast drengirnir hafa verið neikvæðir gagnvart þessu framan af en eru nú mjög sáttir og segjast hafa lært helling. „Það er líka mamma búin að hafa samband við mig og þakka fyrir þetta. Drengurinn er þá búinn að vera við matarborðið að ræða málin við móður sína og systur.“
Hanna er síður en svo á því að kynjafræði verði óþörf eftir því sem fleiri vakna til vitundar um málefni kynjanna og segir að umræða á samfélagsmiðlum sé enn í skotgröfunum. „Umræðan er samhengislaus og sundurlaus oft á tíðum og þá er betra að setjast niður í öruggu rými kennslustofunnar og tala saman,“ segir Hanna.
Hanna gerir ekki ráð fyrir öðru en að góður árangur í Borgó verði til þess að rúlla af stað snjóbolta inn í aðra framhaldsskóla, sem margir eru þegar farnir að innleiða kynjafræði.