Þegar stjórn Icelandair ákvað árið 2012 að endurnýja flugflotann með 737 Max-þotum voru enn fjögur ár í fyrsta flug vélarinnar en fyrir lágu útreikningar um að þær yrðu 23 prósent sparneytnari en Boeing 757 þoturnar. Núna þegar reynsla er komin á rekstur þeirra sér flugrekstrarstjórinn að vélarnar eru mun hagkvæmari.
„Reyndin er sú að þær eru 27 prósent hagkvæmari hvað varðar eldsneyti, sem er klárlega mjög ánægjulegt fyrir fyrirtækið,“ segir Haukur Reynisson, flugrekstrarstjóri Icelandair, í viðtali í fréttum Stöðvar 2.

Hann segir fjögur prósent skipta miklu máli, fyrir bæði eldsneytiskostnað og kolefnisspor.
„Eldsneytisreikningur fyrirtækisins í fullum rekstri, eins og það var 2019, telur tugi milljarða á ársgrundvelli. Ég held að það hafi verið í kringum tuttugu milljarðar, ef ég man rétt.“
Þessi fjögur prósent þýða jafnframt að flugvélin er fjórum prósentum langdrægari og nýtist þar með á fleiri áfangastaði félagsins eins og Orlando og Seattle en aðeins Portland er fjarlægari.
„Við höfum reiknað Maxinn inn þannig að hann geti flogið á Orlando. Ég hugsa að við komum nú ekki til með að nota hann samt sem áður á Orlando þar sem flutningar eru yfirleitt talsvert miklir á þeirri leið.
En til dæmis Seattle. Við ætluðum ekki að nota Maxinn á Seattle. En sjáum fram á að hann kemur til með að þjónusta þeirri leið mjög vel,“ segir Haukur.
Fyrir covid-kreppuna var Icelandair alvarlega að skoða kaup á langdrægari Airbus A321 þotum sem forstjóri Icelandair sagði fyrir tveimur árum að væru bestar til að leysa 757-vélarnar af hólmi. Með nýjar upplýsingar um getu Maxanna er orðið minna aðkallandi að endurnýja flotann með nýrri tegund.
„Við sáum það út, þegar við skoðuðum þetta á sínum tíma, að Maxinn væri betri kostur. Og ég held að hann sé að sýna það í rauninni. Og hvort að við förum í ákvörðunartöku á næstu tveimur til þremur árum varðandi frekari endurnýjun á flotanum, það hefur ekki verið tekin ákvörðun um það,“ segir flugrekstrarstjóri Icelandair.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: