Fótbolti

Allegri tekur aftur við Juventus

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Massimiliano Allegri smellir kossi á ítalska meistarabikarinn sem hann hefur unnið sex sinnum, fimm sinnum með Juventus og einu sinni með AC Milan.
Massimiliano Allegri smellir kossi á ítalska meistarabikarinn sem hann hefur unnið sex sinnum, fimm sinnum með Juventus og einu sinni með AC Milan. getty/Valerio Pennicino

Eins og við var búist hefur Massimiliano Allegri verið ráðinn knattspyrnustjóri Juventus á nýjan leik.

Allegri tekur við stjórastarfinu hjá Juventus af Andrea Pirlo sem var látinn taka pokann eftir aðeins eitt tímabil við stjórnvölinn hjá liðinu.

Allegri stýrði Juventus á árunum 2014-19. Undir hans stjórn varð liðið fjórum sinnum í röð tvöfaldur meistari heima fyrir og auk þess ítalskur meistari 2019. Þá komst Juventus í tvígang í úrslit Meistaradeildar Evrópu undir stjórn Allegris.

Hinn 53 ára Allegri var látinn fara frá Juventus eftir tímabilið 2018-19 og hefur ekki þjálfað undanfarin tvö ár.

Juventus endaði í 4. sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar á nýafstöðnu tímabili. Þar með lauk langri sigurgöngu liðsins sem hafði orðið Ítalíumeistari níu sinnum í röð. Juventus varð hins vegar bikarmeistari undir stjórn Pirlos.

Áður en Allegri tók við Juventus í fyrra skiptið stýrði hann AC Milan um fjögurra ára skeið. Undir hans stjórn varð Milan ítalskur meistari 2011.


Ítalski boltinn, Serie A, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Serie A er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×