Erlent

Ákærður fyrir hryðjuverk vegna árásarinnar í Ontario

Kjartan Kjartansson skrifar
Tvær ungar konur leggja blóm á staðinn þar sem fimm manna fjölskylda var ekin niður fyrir rúmri viku. Fjögur þeirra létust en níu ára drengur lifði af.
Tvær ungar konur leggja blóm á staðinn þar sem fimm manna fjölskylda var ekin niður fyrir rúmri viku. Fjögur þeirra létust en níu ára drengur lifði af. AP/Geoff Robins/The Canadian Press

Ríkissaksóknari Kanada hefur gefið út ákæru vegna hryðjuverka á hendur tvítugum karlmanni sem drap fernt þegar hann ók vísvitandi á fólkið í Ontario í síðustu viku. Lögregla telur að maðurinn hafi ráðist á fólkið sem tilheyrði allt sömu fjölskyldu vegna þess að það var múslimar.

Þrjár kynslóðir Afzaal-fjölskyldunnar létu lífið þegar Nathaniel Veltman ók pallbíl sínum viljandi á fjölskylduna þar sem hún var í kvöldgöngu í borginni London í Ontario sunnudaginn 6. júní. Hjónin Salman Afzaal, 46 ára og Madiha Salman, 44 ára, Yumna Afzaal, 15 ára gömul dóttir þeirra, og Talat Afzaal, 74 ára gömul móðir Salmans, létust en níu ára gamall sonur hjónanna lifði af. Hann liggur enn alvarlega særður á sjúkrahúsi en AP-fréttastofan segir að búist sé við að hann nái líkamlegum bata.

Auk hryðjuverkaákærunnar er Veltman ákærður fyrir manndráp að að yfirlögðu ráði og tilraun til manndráps. Veltman hefur ekki tekið afstöðu til ákærunnar.

Lögreglan telur að Veltman hafi lagt á ráðin um morðin og að hatur í garð múslima hafi búið að baki, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Hundruð manna voru viðstödd jarðarför fjölskyldunnar í trúarmiðstöð múslima í Suðvestur-Ontario um helgina.


Tengdar fréttir

Trudeau fordæmir huglausa morðárás á múslimska fjölskyldu

Forsætisráðherra Kanada segir morðárás á þrjár kynslóðir í sömu fjölskyldu í London-Ontario á sunnudag hafa verið grófa og huglausa. Grípa verði til aðgerða til að koma í veg fyrir að hatursglæpur sem þessi endurtaki sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×