Reuters-fréttastofan segir að lögreglumenn í óeirðarbúnaði hafi ýtt þátttakendum í göngunni og dregið þá í burtu. Sumir þátttakendanna hafi veifað regnbogafánanum sem er tákn réttindabaráttu hinsegin fólks.
Gleðigöngur hafa verið bannaðar í Istanbúl frá árinu 2015 vegna „öryggis almennings,“ að sögn AP-fréttastofunnar. Fyrir það tóku þúsundir manna þátt í göngunni árlega. Í ár var gangan bönnuð að nafninu til vegna sóttvarnareglna í kórónuveirufaraldrinum.
Samkynhneigð er ekki ólögleg í Tyrklandi en AK-flokkur Receps Erdogan forseta aðhyllist íhaldssama íslamstrú, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.