Ráðuneytið segir við breska miðla að starfsmaður þess hafi tilkynnt um hvarf skjalanna í síðustu viku. Skjölin innihalda ýmsar upplýsingar um hernaðar- og viðbragðsáætlanir breska hersins.
Meðal annars var þar skjal sem útlistaði möguleg viðbrögð sjóhersins við mögulegum viðbrögðum Rússa við því að breska herskipið HMS Defender sigldi inn í úkraínska lögsögu. Á öðru skjali mátti finna mögulegar áætlanir Breta um að senda herlið til Afganistan.
Það var almennur borgari sem fann skjölin óvænt á bak við strætóstoppistöð í Kent.
Segja ekkert óeðlilegt við skjölin
Í svari varnarmálaráðuneytisins til breskra miðla segir að ekkert óeðlilegt sé við ferð herskipsins um svæði Úkraínu. Varnarmálaráðuneytið búi sig hins vegar vel undir allar ferðir og aðgerðir sínar og sé tilbúið með viðbrögð við öllum mögulegum aðstæðum.
„Varnarmálaráðuneytið fékk upplýsingar um það í síðustu viku að skjöl sem innihéldu viðkvæmar upplýsingar hefðu fundist af almennum borgara. Ráðuneytið tekur upplýsingaöryggi afar alvarlega og hefur hafið rannsókn á málinu.
Starfsmaður okkar sem á hlut að málinu tilkynnti ráðuneytinu að skjölin hefðu týnst. Það væri óviðeigandi að ráðuneytið segði meira um málið,“ segir í svari ráðuneytisins.
Af þessum orðum ráðuneytisins má helst ætla að umræddur starfsmaður hafi týnt skjölunum einhvers staðar utan ráðuneytisins. Mögulega á stoppistöðinni sem þau fundust aftur á.