Álfgrímur Aðalsteinsson var á leið heim af skemmtanalífinu í nótt en skemmtistaðir í bænum eru nýfarnir að mega hafa opið til klukkan fjögur eftir að allar samkomutakmarkanir voru felldar niður.
Þegar hann gekk niður að Lækjartorgi blasti hins vegar við honum óskemmtileg sjón líkt og öðrum vegfarendum miðbæjarins klukkan að verða korter í fimm í nótt.
Sparka í höfuð liggjandi manns
Þar höfðu brotist út hópslagsmál milli um fimm til sjö ungra pilta og má sjá að þrír þeirra ganga þar harðast fram, berja tvo niður í götuna og sparka meðal annars í höfuð annars þeirra á meðan hann liggur í götunni.
Vegfarendum var greinilega mjög brugðið við þetta en Álfgrími tókst að mynda hluta slagsmálanna. Hann hefur sent myndbandið á lögregluna í gegn um Facebook, sem hefur enn ekki svarað honum.
Vísir náði ekki tali af lögreglunni við gerð fréttarinnar. Hópslagsmálanna er hvergi getið í daglegri fréttatilkynningu sem lögregla sendi frá sér í morgun.
Myndbandið birti Álfgrímur einnig á samfélagsmiðlinum TikTok en hann heldur úti afar vinsælli síðu þar. Myndbandið má sjá hér: