Lögreglan upplýsir að frumrannsókn bendi til að ferðalag stúlknanna hafi byrjað í öðru þorpi, Oqaatsuut, sem er norður af bænum Ilulissat. Þar stálu þær smábáti og sigldu áfram til bæjarins Qasigiannguit. Þar stálu þær eldsneyti í því skyni að geta siglt áfram til þorpsins Ikamiut, sem er talsvert fyrir sunnan Ilulissat, að því er varðstjóri lögreglunnar greinir frá í viðtali við Sermitsiaq.
Þar segjast þær hafa lent í vandræðum með vélina. Þær gefa þá skýringu að þær hafi hleypt af skotum til að vekja athygli á sér til að fá hjálp. Lögreglan tekur fram að málið sé enn til rannsóknar.
Í tilkynningu lögreglunnar í gær sagði hins vegar að stúlkurnar hefðu skotið af rifflum þegar fulltrúi yfirvalda hugðist framkvæma borgaralega handtöku vegna bátsstuldarins.
Eftir að lögregla kom á vettvang náðist talstöðvarsamband við stúlkurnar og féllust þær á að leggja frá sér vopnið.
„Þetta gekk allt friðsamlega fyrir sig,“ segir lögregluvarðstjórinn.