Frá þessu greinir RÚV en Svandís ræddi við Morgunútvarp Rásar 2 í morgun.
Flutningi rannsóknanna hefur verið harðlega mótmælt af konum og heilbrigðisstarfsmönnum en meirihluti fagráðs um leghálsskimanir mælti með því að þær yrðu gerðar á Landspítala.
Samningurinn við Hvidovre-sjúkrahúsið er með þriggja mánaða uppsagnarfrest.
Svandís sagði í samtalinu við RÚV að það hefði verið rætt við heilsugæsluna og Landspítalann að flytja rannsóknirnar aftur heim en heimildarmenn innan spítalans sem Vísir ræddi við í gær könnuðust ekki við að slíkt samtal væri í gangi.
„Við höfum raunar talið allan tímann að best færi á að þetta yrði gert hér en til þess þarf þennan undirbúning. Það er ekki eins og Landspítalinn geti tekið við þessu á einum degi,“ hefur RÚV eftir Svandísi.
Hún segir tilkynningar að vænta á næstu dögum.
Lítill vilji til að halda rannsóknunum heima
Rétt er að geta þess að Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu var á vordögum í fyrra falið að kannað það hvernig rannsóknum á leghálssýnum yrði hagað þegar skimunin færðist frá Krabbameinsfélaginu til heilsugæslunnar um áramótin.
Um sumarið barst Landspítala erindi um mögulegan kostnað við framkvæmd rannsóknanna og í nóvember annað erindi þar sem forstjóri heilsugæslunnar spurði stjórnendur á spítalanum hvort þeir gætu tekið verkefnið að sér en lítill tími var þá til stefnu.
Þrátt fyrir að Landspítalinn gæfi jákvætt svar var engu að síður samið við rannsóknarstofuna á Hvidovre-sjúkrahúsinu og meðal annars vísað til gæða og kostnaðar til að rökstyðja þá ákvörðun.
Þeir sem Vísir hefur rætt við um málið hafa allir verið á því að ekkert hafi verið gert í aðdraganda flutnings verkefnisins til að stuðla að því að rannsóknirnar yrðu framkvæmdar hér á landi, hvorki af hálfu heilsugæslunnar né heilbrigðisráðuneytisins.