Adams hefur heitið því að berjast gegn glæpum í borginni og þykir nú líklegur til að verða annar svarti maðurinn til að gegna embættinu.
Hinn sextugi Adams er nú forseti hverfisstjórnarinnar í Brooklyn, sem er einn fimm borgarhluta stórborgarinnar New York. New York er mikið vígi Demókrataflokksins og því eru allar líkur á að fulltrúi flokksins verði kjörinn borgarstjóri.
Aukning glæpa í New York hefur mikið verið í umræðunni að undanförnu, en ný gögn sýna aukningu upp á 22 prósent á síðustu tólf mánuðum. Þá hefur skotárásum fjölgað um 73 prósent.
Frambjóðandi Repúblikana í kosningunum sem fram fara í nóvember verður Curtis Sliwa, stofnandi Guardian Angels, óvopnaðs eftirlitshóps sem þekkur er fyrir rauðar húfur liðsmanna sinna.
Adams hafði betur gegn Kathryn Garcia, fyrrverandi yfirmanni sorphreinsunarmála í New York, í forvali Demókrata. Bill de Blasio, núverandi borgarstjóri New York borgar, hefur ekki notið mikilla vinsælda síðustu ár og mun láta af embætti í nóvember.
Verði Adams kjörinn borgarstjóri verður hann annar svarti maðurinn til að gegna embættinu. Sá fyrsti var David Dinkins sem var borgarstjóri á árunum 1990 til 1993.