Mótmælin voru á vegum Refugees in Iceland, No Borders og Solaris. Þau hófust á Austurvelli um miðjan dag og síðan var marserað upp að lögreglustöðinni á Hverfisgötu. Fréttastofa ræddi við félagsmenn samtakanna á staðnum.
„Okkur ofbauð það sem hefur átt sér stað hérna í þessari viku og í gegnum vikurnar og mánuðina sem á undan voru, aðgerðir og aðfarir lögreglu og Útlendingastofnunar að hælisleitendum á Íslandi," sagði Hildur Maral í samtali við fréttastofu.
Kveikjan að mótmælunum var mál hælisleitenda sem að sögn samtakanna voru leiddir í gildru í húsnæði Útlendingastofnunar til að sækja bólusetningarvottorð, en voru þá handteknir og beittir harðræði af lögreglu. Annar hælisleitendanna var fluttur á bráðadeild í kjölfarið.
„Ég myndi lýsa þessari meðferð sem grófu ofbeldi og mannréttindabrotum, sem eru í raun og veru til skammar fyrir íslensk stjórnvöld. Stjórnvöld sem styðja þessa rasísku útlendingastefnu sem hér er rekin, útlendingastofnun sem vinnur að framgangi hennar fyrir hönd stjórnvalda og lögreglu sem hikar ekki við að beita ofbeldi þegar henni sýnist,“ sagði Gunnar Örvarsson.
Embætti ríkislögreglustjóra hefur vísað því alfarið á bug að lögregla hafi beitt ofbeldi við handtökuna. Palestínsku mönnunum hefur verið vísað úr landi og eftir stendur orð gegn orði.
„Út með útlendingastofnun" var kjörorð dagsins hjá mótmælendum, sem telja að hana eigi að leggja niður og finna mannúðlegri lausnir. Sigríður Láretta Jónsdóttir sagði hana ofbeldisfullt afl í innflytjendamálum, sem ætti ekki rétt á sér.