Hlutafjárútboði félagsins lauk miðvikudaginn 30. júní en útboðsgengið var 12,5 krónur á hlut. Þremur dögum eftir skráningu félagsins á markað er gengið komið niður í átta krónur á hlut.
Viðskipti með bréfin hafa verið lítil frá skráningu en í dag námu viðskipti aðeins fjórum milljónum króna. Ástæða þess er líklega veglegur skattaafsláttur sem stendur þeim sem halda bréfum sínum í minnst þrjú ár til boða.
Einstaklingar sem eru með skattalegt heimilisfesti á Íslandi og skráðu sig fyrir hlutum í félaginu fyrir minnst 300 þúsund krónur uppfylla skilyrði um frádrátt frá tekjuskatts- og/eða fjármagnstekjuskattsstofni sínum fyrir allt að 75% af fjárfestingu sinni, að því gefnu að þeir eigi hlutabréfin í að lágmarki þrjú ár.