Samkvæmt bráðabirgðatölum frá almannavörnum greindust einnig tólf á landamærum í gær. Ekki er enn vitað hversu margir af þeim sem greindust alls í gær eru bólusettir.
Smitrakning stendur yfir en 340 eru nú í sóttkví og 97 í einangrun. Fram kemur í tilkynningu almannavarna að búast megi við að enn fleiri fari í sóttkví eftir daginn í dag. Þá hvetja almannavarnir alla sem finna fyrir minnstu einkennum að fara í sýnatöku, bæði bólusetta og óbólusetta.
Um 170 dvelja nú á sóttkvíarhótelum Rauða krossins, sem Gylfi Þór Þorsteinsson forstöðumaður sóttvarnahúsa segir í minna lagi.
„Á móti kemur er að það er að fjölga gífurlega hjá okkur í farsóttarhúsinu, þar erum við núna með yfir sextíu einstaklinga og þar af eru 36 í einangrun hjá okkur,“ segir Gylfi.

Sérstaklega hafi gestum fjölgað í farsóttarhúsinu við Rauðarárstíg í gær og í fyrradag - og Gylfi gerir ráð fyrir að taka á móti fleirum í dag. Um helmingur þeirra sem eru í einangrun eru Íslendingar en hinn helmingurinn bólusettir ferðamenn sem greindust með veiruna í sýnatöku fyrir brottför.
„Fólk er náttúrulega hingað komið til að ferðast og er að fara vítt og breitt um landið eða jafnvel að koma og hitta vini og ættingja,“ segir Gylfi.
Ekki „skemmtileg“ einkenni
Þá sé stór hópur þeirra sem eru í einangrun með talsverð einkenni, þrátt fyrir bólusetningu. Ekki hefur þó þurft að flytja neinn á sjúkrahús vegna alvarlegra veikinda.
„Og þetta eru ekkert einkenni sem er skemmtilegt að hafa. Þessu virðist fylgja núna svona mikil og slæm hálsbólga, niðurgangur, mikill höfuðverkur, fólki er þungt fyrir brjóstinu, andardráttur kannski erfiður. Þetta eru þessi klassísku einkenni sem hafa verið að fylgja þessum vírus nánast frá upphafi. Og þau eru að koma fram hjá bólusettum líka, því miður.“
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur boðað að hann hyggist leggja til að aðgerðir verði hertar á landamærum. Hann hefur sagt að til greina komi að krefjast þess að fólk framvísi neikvæðu PCR-prófi við komu til landsins. Þórólfur segir í samskiptum við fréttastofu í morgun að hann hafi ekki skilað minnisblaðinu enn.
„Ég get alveg sagt þér það strax að Þórólfur er miklu betur til þess fallinn en ég að segja hvað eigi að gera á landamærunum,“ segir Gylfi.
„En miðað við mitt leikmannamat þá myndi ég halda að ef fólk þurfi að framvísa neikvæðu PCR-prófi við komu frá sínu heimalandi þá strax myndi það hjálpa mikið að halda veirunni utan landssteinanna.“