Þetta segir Britney í tilfinningaþrunginni Instagram-færslu og breska ríkisútvarpið greinir frá.
„Þetta forræðismál hefur drepið drauma mína,“ skrifaði stjarnan í langri Instagram-færslu. „Allt sem ég hef núna er von.“
Greint var frá því fyrr í vikunni að Britney vilji kæra föður sinn fyrir að hafa misbeitt valdi sínu yfir henni. Hann, ásamt fleirum, fékk forræði yfir henni árið 2008 eftir að Britney hafði glímt við andleg veikindi og hún talin glíma við vímuefnavanda.
„Ég ætla ekki að koma fram á sviði á næstunni á meðan pabbi minn stjórnar því hverju ég klæðist, hvað ég segi eða hvað ég hugsa,“ skrifar Britney. Hún hefur ekki stigið á svið síðan 2018.
„Ég vil miklu frekar deila myndböndum af mér heima í stofu en á sviði í Vegas. Ég ætla ekki að stífmála mig og reyna reyna reyna á sviði aftur og geta ekki verið samkvæm sjálfri mér vegna endurgerða af lögunum mínum í fleiri ár.“
Þá segist hún ekki hrifin af nýlegum heimildarmyndum um líf hennar og segir hún „niðurlægjandi augnablik úr fortíðinni“ hafa verið meginefni myndanna. „Ég er löngu komin yfir þetta.“
Stjarnan hefur ítrekað gagnrýnt heimildarmyndir um líf hennar, þar á meðal Framing Britney Spears sem hefur verið tilnefnd til tveggja Emmy verðlauna. Myndin, auk #FreeBritney hreyfingarinnar hefur vakið gríðarlega mikla athygli á sjálfræðisbaráttu stjörnunnar og hefur stór hluti almennings gengið í lið með henni vegna frásagna um eðli forræðisins yfir henni.
Frásögn hennar fyrir dómi í síðasta mánuði vakti gríðarlega athygli en þar lýsti hún því að hún hafi verið þvinguð til að taka geðlyf, sem hún þurfi ekki á að halda, hún hafi verið neydd til að setja upp hormónalykkjuna, sem er getnaðarvörn sem komið er fyrir í legi, þrátt fyrir að hún vilji fleiri börn og hún hafi verið neydd til að koma fram á tónleikum.
Á miðvikudag fékk hún leyfi frá dómstólum til að ráða eigin lögmann í málið en frá upphafi þess hefur hún haft lögmann sem skipaður var af dómstólum. Í ljós kom að hann hafði ekki skilað inn nauðsynlegum gögnum til að fella forræðið yfir henni úr gildi, þrátt fyrir vilja hennar til þess, og sagði hann af sér í kjölfarið.