Fótbolti

Koeman: Messi líklegastur til að vinna Gullboltann í ár

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Má illa við því að missa Messi burt.
Má illa við því að missa Messi burt. vísir/getty

Ronald Koeman, stjóri Barcelona, fer ekki í felur með að alvarleg fjárhagsstaða félagsins hafi áhrif á undirbúning liðsins fyrir spænsku úrvalsdeildina.

Koeman er þó vongóður um að Lionel Messi verði hluti af leikmannahópnum þegar mótið byrjar á nýjan leik en Messi er samningslaus og má ganga að því sem gefnu að til hans streymi nú ýmis boð um gull og græna skóga víða um veröld.

Þrátt fyrir að PSG og Man City hafi lagt mikla áherslu á að klófesta Argentínumanninn knáa eru taldar mestar líkur á að hann verði um kyrrt í Barcelona.

„Það er mjög mikilvægt. Við sjáum það á síðasta tímabili, eftir erfiða byrjun, að hann er ennþá besti leikmaður í heimi,“ segir Koeman um Messi.

„Messi er fyrirliðinn okkar og fyrirmynd fyrir aðra leikmenn. Hann er alltaf að sýna það að hann sé bestur í heimi. Ég veit hversu mikið hann vildi vinna Copa America. Hann er líklegastur til að vinna Gullboltann í ár,“ segir Koeman.

Mikið hefur verið skrifað um vandræði Barcelona fjárhagslega en Koeman kveðst ánægður með frammistöðu félagsins á leikmannamarkaðnum þrátt fyrir erfiðar aðstæður.

„Við höfum gert vel á leikmannamarkaðnum í sumar. Við höfum fengið leikmenn á borð við Memphis Depay, Sergio Aguero og Eric Garcia og þeir koma allir frítt. Ef ég mun fá pening til leikmannakaupa munum við skoða hvar við viljum styrkja liðið.“

„Við gerum alltaf miklar kröfur. Við vitum ekki enn hvernig liðið mun líta út vegna fjárhagsstöðunnar hjá félaginu,“ viðurkennir Koeman þó engan bilbug sé á honum að finna.

„Við viljum hafa eins góðan leikmannahóp og mögulegt er. Við erum stórt félag, Barcelona og við ætlum alltaf að vinna titla.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×