Óvissan snýr sérstaklega að eldra fólki og fólki með undirliggjandi sjúkdóma.
Sjá einnig: Leggur til takmarkanir innanlands
Síðasta sunnudag birtist frétt í Times of Israel þar sem fram kom 61 einstaklingur var á sjúkrahúsi í alvarlegu ástandi. Þar af var einungis einn sem var fullbólusettur og ekki orðinn sextíu ára gamall. Viðkomandi var á aldrinum 50 til 59.
Enginn fullbólusettur einstaklingur undir fimmtugu var þá á sjúkrahúsi í alvarlegu ástandi.
Fjórtán hinna alvarlegu veiku voru óbólusettir og undir fimmtugu. Tveir voru undir fertugu.
Heilt yfir voru 6.598 með virk smit í Ísrael, 121 á sjúkrahúsi, 61 í alvarlegu ástandi og fjórtán í öndunarvél. Tuttugu hafa dáið vegna Covid-19 í þessum mánuði.
Í dag eru 72 í alvarlegu ástandi en aldursdreifing þeirra liggur ekki fyrir.
Sjá einnig: Vonar að gripið verði til aðgerða eins fljótt og hægt er
Alvarlega veikum fjölgar
Í grein Times of Israel er tekið fram að alvarlega veikum hafi fjölgað úr nítján í 121 á einum mánuði, með innreið Delta-afbrigðisins í Ísrael. Í janúar, þegar faraldurinn var hvað verstur, voru rúmlega þúsund alvarlega veikir.
Sami miðli vísaði í dag í umfjöllun Channel 12 í Ísrael sem birt var í sjónvarpi þar í gærkvöldi. Þar kom fram að svo virðist sem að þeir sem veikist alvarlega séu útskrifaðir eftir skemmri tíma en þekktist í upphafi ársins. Tími alvarlega veikra á sjúkrahúsi hafi farið úr tíu til tólf dögum í um átta daga.
Sjá einnig: Boðað verður til ríkisstjórnarfundar þegar minnisblaðið berst
Nýju tölurnar ná yfir styttra tímabil en þær fyrri en þykja samt til marks um að þeir sem veikist alvarlega, veikist ekki jafn alvarlega og í fyrri bylgjum.
Veikir fá þriðja skammtinn
Lang flestir eldri borgarar í Ísrael fengu tvo skammta af bóluefni Pfizer. Fyrr í þessum mánuði var svo byrjað að gefa fólki með undirliggjandi sjúkdóma þriðja skammtinn. Ekki stendur til að gefa öðrum hópum þriðja skammtinn og ráðamenn í Ísrael segja það vegna þess að virkni bóluefna sé mikil.
Unnið er að því að bólusetja börn á aldrinum 12-15 ára í Ísrael.
Tölur frá heilbrigðisráðuneyti Ísraels gefa í skyn að tveir skammtar af bóluefni Pfizer sé með um 64 prósenta virkni gegn smiti en veiti 93 prósenta vörn gegn alvarlegum veikindum. TOI segir sérfræðinga í Ísrael þó ósammála um trúverðugleika þessara ganga.