Innlent

„Kærulausi lottóspilarinn“ fundinn

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Hinn heppni spilari á nú 54,5 milljónir króna.
Hinn heppni spilari á nú 54,5 milljónir króna. Vísir/Vilhelm

Hann er sagður hafa verið rólegur og yfirvegaður vinningshafinn í Lottóinu sem kom við í afgreiðslu Íslenskrar getspár í dag til að sækja fyrsta vinning upp á 54,5 milljónir króna. Miðinn var keyptur 12. júní síðastliðinn á sölustað N1 í Mosfellsbæ.

Í tilkynningu frá Íslenskri getspá kallar hinn ljónheppni lottóspilari sjálfan sig „kærulausan lottóspilara“. Hann segist hafa verið heppinn að hafa ekki týnt veskinu sínu sem innihélt vinningsmiðann góða.

„Ég fékk lánaðan síma hjá félaga mínum og notaði lottóappið til að skanna nokkra miða og þar kom vinningurinn í ljós. Ég var reyndar heppinn að hafa ekki týnt veskinu mínu nokkru áður með lottómiðanum góða, en það hafði dottið út úr bílnum hjá mér og tók ég bara eftir því fyrir tilviljun,“ er haft eftir honum.

Svo virðist sem að heppnin sé arfgeng í þessari fjölskyldu en vinningshafinn er ekki sá eini í fjölskyldunni sem hefur unnið 1. vinning í lottóinu. Faðir hans vann fyrsta vinninginn árið 1993.

Vinningshafinn hefur ekki ákveðið hvernig hann ætlar að verja miljónunum, en sagði að hluti þeirra færi örugglega til góðgerðarmála, að því er segir í tilkynningu Íslenskrar getspár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×