Hingað til hafa einungis þeir sem bólusettir eru í Bretlandi sloppið við sóttkví við komu til Bretlands frá löndum sem skilgreind eru sem appelsínugul.
Ísland er sem stendur á grænum lista hjá Bretum en miðað við þróun síðustu daga er ekki ólíklegt að Ísland endi á appelsínugulum lista. Fjórtán daga nýgengi smita er komið í 217,3. Nýgengi er lægra í nokkrum löndum sem eru á appelsínugulum lista Breta, til dæmis í Danmörku og í Þýskalandi.
Í síðustu viku tilkynntu stjórnvöld að sóttkvíarskylda yrði afnumin í ágúst fyrir þá Breta sem bólusettir eru erlendis en eru með skráðan heimilislækni í Bretlandi. Bretar sem búa erlendis kvörtuðu sáran yfir því fyrirkomulagi og sögðu það aðeins gagnast örfáum.
Heimildarmenn The Guardian innan ríkistjórnar Bretlands fullyrða að breyting á reglum um sóttkví verði samþykkt á fundi í dag.