Þetta er á meðal þess sem kemur fram í daglegri fréttatilkynningu lögreglu í morgun. Mennirnir voru báðir vistaðir í fangageymslu í nótt fyrir rannsókn málsins, einnig sá sem átti að vera í sóttkví.
Handtakan átti sér stað um klukkan korter yfir eitt í nótt. Fyrr það sama kvöld, rétt um kvöldmatarleytið, voru tveir menn í annarlegu ástandi handteknir í sama hverfi Kópavogs grunaðir um líkamsárás. Þeir fengu aðhlynningu á bráðamóttöku en þurftu síðan að gista fangageymslu lögreglu í nótt.
Önnur líkamsárás var tilkynnt við Hvaleyrarvatn í gærkvöldi. Unglingar segja að hópur manna vopnuðum bareflum hafi ráðist á sig við vatnið. Lögregla segir að ekki sé vitað um meiðsl unglinganna og að málið hafi verið leyst með aðkomu foreldra.
Í miðbænum var einnig nokkuð um að vera hjá lögreglunni í gær. Klukkan að verða sex um kvöld var maður í annarlegu ástandi handtekinn á ónefndum veitingastað. Hann var þá búinn að valda einhverjum skemmdum á staðnum. Maðurinn var vistaður í fangageymslu lögreglu vegna ástands síns.
Síðar um kvöldið var tilkynnt um rúðubrot á bílum. Fyrst í bílakjallara í hverfi 103 klukkan 20:14 þar sem búið var að brjóta hliðarrúður í tveimur bílum. Síðan á bílastæði í miðbænum klukkan 20:23 þar sem búið var að brjóta afturrúðu á bifreið.
Í nótt var einn maður handtekinn í miðbænum, klukkan rúmlega hálf tvö. Hann var ofurölvi, neitaði að gefa lögreglu upp kennitölu sína, fór ekki að fyrirmælum og hafði í hótunum við lögreglumenn að þeirra sögn. Hann var vistaður í fangageymslu í nótt.