Meira en 150 eldar hafa kviknað í Tyrklandi á síðustu níu dögum og brenna þeir flestir við suðurströnd landsins. Margir ferðamannastaðir hafa orðið illa úti vegna eldanna og fjöldi ferðamanna þurft að flýja dvalarstaði sína vegna hamfaranna.
Þá hafa miklir eldar brunnið í Grikklandi, en þar hafa sömuleiðis um 150 eldar brunnið undanfarna daga. Rýma þurfti tugi bæja á eyjunni Evia og hafa meira en 170 slökkviliðsmenn, 52 dælubílar og sex flugvélar barist við eldana þar.
Naumlega tókst að bjarga fornum Ólympíuleikvangi á Pelópsskaga þar sem eldar hafa brunnið og þurfti að rýma tugi bæja í nágrenni við leikvanginn. Kýpur og Frakkland hafa sent Grikkjum aðstoð og tvær flugvélar útbúnar slökkvitækjum munu koma til Grikklands frá Svíþjóð í dag.
Gróðureldar hafa ekki aðeins brunnið í Evrópu heldur hafa gríðarlegir eldar herjað á Kaliforníu vestanhafs. Þúsundir þurftu að yfirgefa heimili sín í norausturhluta Kaliforníu í gær og urðu minnst fjögur heimili eldinum að bráð. Eldarnir hafa fengið viðurnefnið Áreldarnir en hátt í 600 hektarar urðu eldunum að bráð á fyrstu klukkutímunum eftir að þeir kviknuðu.