Í póstnúmerinu 112 voru afskipti höfð af tveimur 18 ára mönnum sem höfðu gert tilraun til að komast inn á vínveitingahús. Höfðu þeir falsað rafræn skilríki til að geta keypt sér áfengi. Var skýrsla rituð um atvikið, samkvæmt tilkynningu frá lögreglu.
Þá var ökumaður bifreiðar stöðvaður í Ártúnsbrekku eftir að hafa mælst á 125 km/klst þar sem hámarkshraðinn er 80 km/klst. Viðurkenndi hann brot sitt og málið var klárað með aðkomu forráðamanns og tilkynningu til barnaverndar.
Þrír voru stöðvaðir í gærkvöldi og nótt grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna og hald lagt á ætluð fíkniefni og fjármuni í Kópavogi. Í Hlíðarhverfinu handtók lögregla mann í annarlegu ástandi og var hann látinn gista fangageymslur sökum ástands.