Fótbolti

Sterkur sigur Stefáns og félaga í Silkeborg

Valur Páll Eiríksson skrifar
Stefán Teitur Þórðarson spilaði 75 mínútur í góðum sigri kvöldsins.
Stefán Teitur Þórðarson spilaði 75 mínútur í góðum sigri kvöldsins. silkeborgif.com

Silkeborg vann 4-1 sigur á Viborg í fyrsta leik fjórðu umferð úrvalsdeildar karla í fótbolta í Danmörku. Stefán Teitur Þórðarson var í byrjunarliði Silkeborgara.

Stefán Teitur byrjaði á miðjunni hjá Silkeborg, sem er nýliði í deildinni eftir að hafa komið upp í B-deildinni í vor. Um nýliðaslag var að ræða, þar sem Viborg vann B-deildina í fyrra.

Silkeborg var með þrjú stig eftir fyrstu þrjá leikina, en Viborg var með stigi meira í jafnri töflunni.

Markalaust var fram á 43. mínútu leiksins þegar Sebastian Jörgensen, framherji Silkerborgar, kom liðinu í forystu skömmu fyrir hlé. Hann skoraði svo sitt annað mark á 69. mínútu eftir stoðsendingu frá Nicolai Vallys.

Jörgensen launaði greiðann með því að leggja upp mark fyrir Vallys níu mínútum síðar og sigur heimamanna gott sem í höfn. Christian Sörensen minnkaði muninn fyrir Viborg sex mínútum fyrir leikslok en Alexander Lind innsiglaði 4-1 sigur Silkeborgar seint í uppbótartíma.

Stefán Teitur fór af velli á 75. mínútu í liði Silkeborgar, í stöðunni 2-0, en sigur liðsins skýtur því upp í 3. sæti deildarinnar með sex stig, stigi frá toppliði Randers, en hin tíu liðin í deildinni eiga öll eftir að spila sinn leik í umferðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×