Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir Íslands, ræddi við Vísi fyrr í dag um endurskoðun á reglum um sóttkví. Eftir að hafa rætt stöðuna hér innanlands færðist umræðan að Bretlandi þar sem troðið var út úr dyrum á nánast öllum fótboltaleikjum sem fram fóru um liðna helgi.
Hér að neðan má sjá mynd frá leik Peterborough United og Cardiff City í ensku B-deildinni í gær og ljóst að það er uppselt á flest alla leiki, sama um hvaða deild er að ræða.

Þórólfur telur Breta gera stór mistök með þessu en bólusetningarhlutfallið í Bretlandi er lægra en á Íslandi þar sem töluverðar takmarkanir eru, bæði á íþróttaviðburðum sem og annarsstaðar.
Sem stendur miðast hámarksfjöldi í einu og sama rýminu á Íslandi við 200 manns. Börn fædd 2016 eða síðar eru undanskilin reglunni. Undanþága er gerðar fyrir almenningsamgöngur, hópbifreiðar, farþegaferjur og störf viðbragðsaðila.
Þá er fólk skyldað að vera með grímu þar sem ekki er unnt að tryggja 1 metra nálægðarmörk milli einstaklinga. Hún á þó ekki við börn fædd 2006 eða síðar.
„Ég held að þetta sé mjög óvarlegt hjá Bretum að gera þetta svona. Þeir gætu átt eftir að fá þetta í bakið á næstunni. Það er mögulegt,“ sagði Þórólfur í viðtali við Vísi fyrr í dag.
