Sé það gefið nógu snemma eftir að fólk fer að finna fyrir einkennum Covid-19 getur það dregið úr líkum á spítalainnlögn um allt að 70 prósent.
Lyfið er það sama og Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, fékk gefið þegar hann veiktist af Covid-19 í fyrra.
Framleiðandi lyfsins er bandaríska líftæknifyrirtækið Regeneron en það er blanda úr tveimur gerðum mótefnis sem festast á prótein kórónuveirunnar og eiga að hjálpa líkamanum við að hindra veiruna í að dreifa sér. Þannig á lyfið að geta aðstoðað við að hreinsa líkamann fyrr af veirunni en ella.
Prófanir bresku lyfjastofnunarinnar á mótefnalyfinu, Ronapreve, sýndu fram á góða virkni þess.
Samkvæmt frétt The Guardian um mótefnalyfið er talið að það geti gagnast þeim vel sem eru viðkvæmastir fyrir veirunni og eiga í mestri hættu á að þurfa á spítalainnlögn að halda. Þá er sérstaklega horft til þeirra sem nota ónæmisbæld lyf og hafa fyrir vikið ekki tekið nægilega vel við bóluefnum.
Sajid Javid, heilbrigðisráðherra Bretlands, segir þetta mikil gleðitíðindi og vonar að hægt verði að taka lyfið í notkun á opinberum spítölum sem fyrst.
Evrópusambandið skoðar lyfið
Evrópusambandið keypti 55 þúsund skammta af lyfinu í júní og er með það í prófunum, samkvæmt frétt Reuters.
Óljóst er hvort íslensk yfirvöld séu með lyfið til skoðunar og hvort þau hyggist þá fylgja Evrópusambandinu að málinu, eins og gert var við kaup á bóluefnum, eða fara sjálf í rannsóknir og kaup á mótefnalyfinu.