Fótbolti

Mourinho fljótastur í fimmtíu sigra á Ítalíu, Spáni og Englandi

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jose Mourinho byrjaði stjóratíð sína hjá Roma á sigri.
Jose Mourinho byrjaði stjóratíð sína hjá Roma á sigri. Matteo Ciambelli/DeFodi Images via Getty Images

Roma vann 3-1 heimasigur gegn Fiorentina í fyrstu umferð ítölsku úrvalsdeildarinnar í kvöld. Jose Mourinho var að stýra Roma í fyrsta skipti í deildarkeppni, en þetta var sigur númer fimmtíu hjá Portúgalanum sem stjóri í ítölsku deildinni.

Bartlomiej Dragowski fékk að líta beint rautt spjald í liði gestanna eftir aðeins 17 mínútna leik og Henrikh Mkhitaryan nýtti sér liðsmuninn og kom Roma yfir níu mínútum síðar.

Nicolo Zaniolo jafnaði liðsmuninn þegar hann fékk sitt annað gula spjald eftir rúmlega 50 mínútna leik. Nikola Milenkovic jafnaði metin fyrir gestina nokkrum mínútum seinna, en Jordan Veretout tryggði 3-1 sigur Roma með tveimur mörkum.

Eins og áður segir var þetta sigur númer fimmtíu hjá Mourinho sem stjóri í ítölsku deildinni, en hann var áður með 49 sigra í 76 leikjum með Inter. Engum stjóra hefur tekist að vinna fimmtíu sinnum í færri leikjum en Mourinho síðan að þriggja stiga kerfið var tekið upp á Ítalíu tímabilið 1994-1995.

Þrátt fyrir að stuðningsmenn bæði Tottenham og Manchester United hafi oft á tíðum verið þreyttir og pirraðir út í leikstíl Mourinho þegar hann var við stjórnvölin hjá þeirra liðum, er erfitt að neita því að hann hefur náð gríðarlegum árangri á sínum ferli.

Ásamt þeim fjölmörgu titlum sem Portúgalinn hefur unnið, er hann einnig sá stjóri sem er fljótastur upp í fimmtíu sigra bæði í ensku úrvalsdeildinni, sem og spænsku úrvalsdeildinni. Það tók hann 63 leiki á Englandi og aðeins 62 leiki á Spáni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×