Innlent

Enn ekki gengið frá samningum þrátt fyrir að fjármögnun hafi verið tryggð

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Hjúkrunarrýmin hefðu losað pláss á Landspítalanum, þar sem álagið hefur verið mikið vegna kórónuveirufaraldursins.
Hjúkrunarrýmin hefðu losað pláss á Landspítalanum, þar sem álagið hefur verið mikið vegna kórónuveirufaraldursins.

Enn hefur ekki verið gengið frá samningum um rekstur 90 hjúkrunarrýma á höfuðborgarsvæðinu, þrátt fyrir að fjármögnun þeirra hafi verið tryggð fyrir áramót. Vonir stóðu til að hægt yrði að taka hjúkrunarrýmin í notkun í sumar, sem hefði létt verulega á hinum margumrædda „fráflæðisvanda“ á Landspítalanum.

Sjúkratryggingar Íslands auglýstu í byrjun árs eftir aðilum sem gætu tekið þjónustuna að sér og buðu tveir í verkefnið. Samkvæmt svörum frá Sjúkratryggingum var gengið til samninga við annan þeirra sem sýndu áhuga „en því miður strönduðu samningar á lokastigi þegar í ljós kom að hann gat ekki tryggt aðgengi að því húsnæði sem hann hafði boðið til verkefnisins“.

Samkvæmt heimildum Vísis var umdræddur aðili fyrirtækið Heilsuvernd.

Verkefnið hefur nú verið boðið út að nýju en að þessu sinni auglýsa Sjúkratryggingar eftir húsnæði undir rekstur tímabundins hjúkrunarheimilis. Þegar það hefur verið tryggt verður auglýst eftir rekstraraðila til að sjá um þjónustuna.

Heilbrigðisráðuneytið boðaði „stórfjölgun hjúkrunarrýma á næsta ári“ í tilkynningu í desember 2020, þar sem fram kom að áformað væri að auka framlög til hjúkrunarrýma um 1,7 milljarða króna. Stærstum hluta yrði varið til að fjármagna 90 hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×