Eftir 2-0 sigur Liverpool á Burnley í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn kvartaði Klopp yfir því hversu fast Burnley spilaði og nefndi sérstaklega þrjá leikmenn í því samhengi; framherjana Chris Wood og Ashley Barnes og miðjumanninn Josh Brownhill. Það fór illa í Dyche.
„Ég er vonsvikinn með að hann hafi nefnt leikmennina. Það var engin þörf á því. Þetta eru atvinnumenn sem hafa unnið hörðum höndum að því að komast á þann stað sem þeir eru á,“ sagði Klopp.
„Það sem hann sagði um tæklingarnar var rangt. Það var óviðeigandi og sjálfur myndi ég aldrei gera það. Áhyggjur mínar felast í því að hann hafi efast um að lið ættu ekki að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að vinna, sem við gerðum því enginn leikmaður fékk gult spjald.“
Klopp var ekki eini stjórinn í ensku úrvalsdeildinni sem lýsti yfir óánægju sinni með breyttar áherslur í dómgæslunni um helgina. Ole Gunnar Solskjær, stjóri Manchester United, gerði það einnig eftir 1-1 jafnteflið við Southampton á sunnudaginn. Norðmaðurinn var ósáttur með að fá ekki aukaspyrnu í aðdraganda marks Dýrlinganna.
Eftir fyrstu tvær umferðirnar í ensku úrvalsdeildinni er Burnley án stiga og með markatöluna 1-4. Annað kvöld sækir Burnley Newcastle United heim í 2. umferð enska deildabikarsins.