Andri Lucas er 19 ára gamall og þreytti frumraun sína með íslenska landsliðinu í 2-0 tapi liðsins fyrir Rúmeníu á Laugardalsvelli í gærkvöld. Hann gæti þá komið við sögu er Ísland mætir Norður-Makedóníu á sunnudag eða Þýskalandi á miðvikudag.
Hann hefur verið á mála hjá Real Madrid frá 2018 eftir að hafa verið áður í unglingastarfi Barcelona og Espanyol í Katalóníu. Hann hóf æfingar hjá Barcelona á meðan faðir hans aðstoðarlandsliðsþjálfarinn Eiður Smári Guðjohnsen lék með Barcelona árin 2006 til 2009.
Gudjohnsen back in the Champions League in 2021 https://t.co/C3za3PuYCP
— Football España (@footballespana_) September 3, 2021
Ancelotti valdi 25 manna leikmannahóp fyrir komandi átök hjá Real Madrid í Meistaradeildinni í vetur en 15 uppaldir leikmenn til viðbótar eru á varalista. Andri Lucas er í síðari hópnum.
Miðlar á við AS, Football Espana og Marca vöktu sérstaka athygli á því að Andri Lucas sé í Meistaradeildarhópi spænska stórliðsins. Hann var frá lungann úr síðasta tímabili vegna hnémeiðsla en var færður upp í B-lið félagsins, Castilla, fyrir komandi leiktíð og mun spila með því í spænsku C-deildinni í vetur.
Áhugavert verður að sjá hvort hann fái tækifæri á stóra sviðinu en Real Madrid er í riðli með Ítalíumeisturum Inter Milan, Shakhtar Donetsk frá Úkraínu og Sheriff Tiraspol frá Moldóvu.
Son of former Barça star Gudjohnsen in Real Madrid's Champions League squadhttps://t.co/Szt4t9P3lF
— AS English (@English_AS) September 3, 2021