Íslenska liðið kom til baka gegn þeim norður-makedónsku í dag þar sem Brynjar Ingi Bjarnason og Andri Lucas Guðjohnsen skoruðu sitt hvort markið á lokakafla leiksins til að jafna 2-2, eftir að Ísland hafði lent 2-0 undir.
Bæði Birkir Bjarnason og Birkir Már Sævarsson spiluðu allan leikinn í dag og báðir voru þeir að leika sinn 100. landsleik. Aðeins einn karlmaður hefur áður spilað 100 landsleiki fyrir Ísland, Rúnar Kristinsson, sem er leikjahæstur í sögu landsliðsins með 104 landsleiki.
Þeir nafnar geta báðir komist upp fyrir Rúnar í undankeppninni sem nú stendur yfir en Ísland ef hálfnað með sína leiki þar, fimm leikjum er lokið af tíu.
100!!! litli frændi minn. #fyrirmynd pic.twitter.com/bxF1jJHeb6
— gulligull1 (@GGunnleifsson) September 5, 2021
Birkir Már er 36 ára gamall og lék sinn fyrsta landsleik gegn Liechtenstein árið 2007, sem lauk með 1-1 jafntefli. Hinn 33 ára gamli Birkir Bjarnason lék sinn fyrsta leik í 4-0 sigri á Andorra árið 2010.
Ragnar Sigurðsson og Aron Einar Gunnarsson eru næstir á eftir nöfnunum með 97 landsleiki hvor og þá er Kári Árnason í fimmta sæti eftir leik dagsins, sem var hans nítugasti leikur. Hann fór þar með upp fyrir Hermann Hreiðarsson sem lék 89 landsleiki á sínum landsliðsferli.