Safnið er í eigu Harry og Lindu Macklowe sem voru gift í 59 ár. Undanfarin fimm ár hafa þau staðið í hatrammri skilnaðardeilu sem hverfist einna helst um listaverkasafn þeirra, sem þykir einstakt. Skilnaðurinn var ljótur. Sem dæmi um það lét Harry hengja upp risastóra veggmynd af sér og nýrri eiginkonu hans á skýjaklúf við Central Park árið 2019. Íbúð í skýjaklúfrinum var á meðal þess sem hjónin fyrrverandi deildu um í skilnaðinum.
Hjónin fyrrverandi, sem eru bæði á níræðisaldri, höfðu komið sér upp merku safni af listaverkum eftir listamenn á borð við Picasso, Rothko og Warhol, svo dæmi séu tekin. Alls eru verkin sem á að bjóða upp hjá Sotheby's í nóvember og maí næstkomandi metin á 600 milljónir dollara.

Á undanförnum fimm árum hafa lögfræðingar hjónanna tekist á um hvernig ætti að skipta eignum þeirra á milli, hver fengi hvað. Deilurnar snérust einnig um hvernig ætti að verðleggja eignir hjónanna. Að lokum fór málið fyrir dómara sem fyrirskipaði að selja ætti 65 af verðmætustu verkunum í listaverkasafninu og skipta ágóðanum jafnt á milli hjónanna.
Charles Stewart, forstjóri Southeby's, segir að uppboðið sé afar óvenjulegt, þar sem afar fátítt sé að svo verðmæt listaverk séu auglýst til sölu á sama tíma. Þeir sem ætla sér að bjóða í verkin þurfa þó líklega að eiga djúpa vasa, einstök verk í safninu eru metin á allt að sjötíu milljónir dollara.