Mikill fagnaðarfundur var líka hjá þeim félögum Bubba og Bo eftir sýningu. Brynhildur Guðjónsdóttir leikhússtjóri var að sjálfsögðu á staðnum og fagnaði með þessum mögnuðu listamönnum.

Sýningar á Níu líf eru nú hafnar aftur eftir tæplega tveggja ára hlé vegna heimsfaraldursins.

Yfir átján þúsund miðar eru seldir á sýninguna og gríðarleg ánægja gesta með sýninguna samkvæmt upplýsingum frá Borgarleikhúsinu. Standandi lófaklapp á hverju kvöldi.


Söngleikurinn Níu líf fjallar um ævi Bubba Morthens, manninn sem fyrst var málsvari verkalýðsins og atómpönkari en svo einnig fíkill, veiðimaður, friðarsinni, boxari og auðvitað tónlistarmaður.

Höfundur og leikstjóri sýningarinnar er Ólafur Egill Egilsson en í þessari stórsýningu leggja leikarar, dansarar, tónlistarmenn og fleiri góðir gestir allt í sölurnar við leitina að Bubbanum í okkur öllum og fylla sviðið með sögum, lögum, ljóðum og litum þessa elskaða og umdeilda listamanns.
