Lögreglan í Hong Kong hefur undanfarið handtekið og ákært fjölda stjórnarandstæðinga fyrir brot á nýlegum þjóðaröryggislögum. Þar á meðal eru forsprakkar LýðræðishreyfingarinnarThe Hong Kong Alliance in Support of Patriotic Democratic Movements in China.
Formaður hreyfingarinnar Lee Cheuk-yan og varaformennirnir tveir Albert Ho og Chow Hang-tung voru í gærkvöldi ákærð fyrir að hafa ógnað þjóðaröryggi og grafið undan yfirvaldinu, samkvæmt öryggislögum sem tóku gildi í Hong Kong í fyrra að frumkvæði stjórnvalda í Peking.
Málið var tekið fyrir af dómstólum í morgun en Lee og Ho afplána nú dóm fyrir þátt þeirra í mótmælunum árið 2019. Chow og fjórir til viðbótar voru handteknir fyrr í þessari viku fyrir að hafa ekki veitt upplýsingar í yfirstandandi rannsókn.
Lögreglan framkvæmdi í gær húsleit á Fjórða júní safninu, sem samtökin halda úti til minningar um atburðina á Torgi hins himneska friðar þann 4. júní 1989. Safnið hefur verið lokað um nokkurt skeið en lögreglan lagði þar hald á tölvur, ýmis skjöl og auglýsingaefni. Þá hefur lögreglan fryst eignir samtakanna sem nema 280 þúsund Bandaríkjadölum, eða um 36 milljónum króna.
Samtökin eru þekktust fyrir að skipuleggja árlega minningarathöfn um atburðina á Torgi hins himneska friðar. Árlega söfnuðust þúsundir saman til að minnast atburðina, fyrir utan síðustu tvö ár en minningarathöfnin hefur verið bönnuð í Hong Kong síðan í fyrra. Stjórnvöld hafa borið fyrir sig samkomutakmarkanir vegna kórónuveirufaraldursins en skipuleggjendur telja skilaboð athafnarinnar orsökina.
Eins og áður segir hafa stjórnvöld herjað á stjórnarandstæðinga undanfarin tvö ár, allt frá því að fjöldamótmæli sem stóðu yfir í marga mánuði hófust sumarið 2019. Tugir stjórnarandstæðinga hafa flúið Hong Kong og enn fleiri verið handteknir og fangelsaðir.