Innlent

Krefjast samnings­fundar fyrir kosningar

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Félag talmeinafræðinga á Íslandi hefur krafist þess að samningaviðræður við Sjúkratryggingar Íslands fyrir Alþingiskosningar. 
Félag talmeinafræðinga á Íslandi hefur krafist þess að samningaviðræður við Sjúkratryggingar Íslands fyrir Alþingiskosningar.  Vísir/Vilhelm

Félag talmeinafræðinga á Íslandi hefur krafist þess að Sjúkratryggingar Íslands gangi að samningsborðinu við félagið fyrir Alþingiskosningar 25. september næstkomandi. Félagið lýsir yfir miklum vonbrigðum með framgöngu Sjúkratrygginga við félagið.

„Félagið krefst þess að gengið verði að samningaborði fyrir Alþingiskosningar 25. september og að hamlandi starfsreynsluákvæði sem stuðlar að mismunun verði fjarlægt úr rammasamningi án tafar,“ segir í ályktuninni sem samþykkt var á aðalfundi félagsins í gær.

Gangist Sjúkratryggingar Íslands ekki við því muni talmeinafræðingar neyðast til að segja sig frá samningi við Sjúkratryggingar sem muni hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir sjúkratryggða skjólstæðinga þeirra.

Í rammasamningi SI við talmeinafræðinga frá nóvember 2017 var sett inn ákvæði sem segir til um að talmeinafræðingar verði að hafa tveggja ára starfsreynslu fullgilds talmeinafræðings til að komast á samning hjá Sjúkratryggingum Íslands.

Talmeinafræðingar hafa mótmælt ákvæðinu harðlega, en svipað ákvæði gilti um sjúkraþjálfara en það var nýlega fellt úr gildi.

Félagið sendir jafnframt út áskorun á Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, að beita sér fyrir því að Sjúkratryggingar Íslands felli út starfsreynsluákvæði talmeinafræðinga í rammasamningi SÍ og heilbrigðisráðuneytis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×