Elliott fótbrotnaði þegar Pascal Struijk tæklaði hann eftir klukkutíma í leik Leeds og Liverpool á Elland Road í gær. Hann var borinn af velli og fluttur á sjúkrahús. Struijk var rekinn af velli fyrir tæklinguna.
Fljótlega eftir leikinn setti Elliott inn færslu á Instagram þar sem hann þakkaði fyrir allar kveðjurnar sem honum höfðu borist.
Seinna um kvöldið bárust fréttir af því að Elliott hefði glatt ungan fótboltastrák sem lá í rúminu við hliðina á honum á spítalanum. Strákurinn hafði handleggsbrotnað í fótboltaleik.
Elliott gaf stráknum treyjuna sem hann spilaði í gegn Leeds og annan takkaskóinn sinn. Eins og sjá má hér fyrir neðan var guttinn býsna sáttur með gjöfina.
Class from Harvey Elliott pic.twitter.com/q1RS91gKvu
— SPORTbible (@sportbible) September 12, 2021
Elliott byrjaði tímabilið af miklum krafti en leikurinn gegn Leeds var hans þriðji í röð í byrjunarliði Liverpool.
Hinn átján ára Elliott kom til Liverpool frá Fulham fyrir tveimur árum. Á síðasta tímabili lék hann sem lánsmaður með Blackburn Rovers í ensku B-deildinni.