Vísir hefur greint frá ásökunum Sigurðar en hann hefur farið mikinn í gagnrýni sinni á Guðna Th. Jóhannesson forseta íslenska lýðveldisins á Facebook-síðu sinni, meðal annars sakað hann um gerendameðvirkni og hræsni.
Áburður um vínstuld
Forsetinn brást við fyrirspurn Ríkisútvarpsins, sem sneri að þessu efni, um helgina síðustu með þeim hætti að hann ætlaði sér ekki að svara einhverju því sem sagt væri á Facebook. En engu að síður er það svo að Facebook heyrir til opinbers vettvangs og forsetinn sjálfur hefur notað hann til að senda frá sér opinberar tilkynningar þegar svo ber undir.
Sigurður hefur einnig haldið því fram, og segist hafa fyrir því áreiðanlegar heimildir, að ónefndur starfsmaður embættisins hafi gengið í vínkjallara Bessastaða og tekið þaðan áfengi til eigin nota:
„Ég get svo upplýst forsetann og fjölmiðla, sem engu þora þegar handhafar opinbers valds eiga hlut að máli, að ég hef fengið staðfest með óyggjandi hætti að nokkuð magn af víni hefur á umliðnum árum verið tekið úr vínkjallara Bessastaða til einka brúks.
Spurning er hvort sú háttsemi hafi rúmast innan starfskjara viðkomandi starfsmanna sem hlunnindi.“
Sigurður minnir á að til séu dómar þar sem áþekk háttsemi hefur verið dæmd sem auðgunarbrot svo sem þegar starfsmenn Keflavíkurflugvallar afgreiddu sjálfan sig með vín úr fríhöfninni.
Vínbirgðastaða Bessastaða könnuð í vikunni

Vísir hafði samband við Örnólf Thorsson, fyrrverandi forsetaritara, en ef að líkum lætur þá á hinn meinti verknaður að hafa gerst á hans vakt. Örnólfur, sem er enn skráður starfsmaður forstetambættisins en lætur af störfum um næstu mánaðarmót, vísaði öllum slíkum fyrirspurnum til Sifjar Gunnarsdóttur sem er nýlega tekin við sem forsetaritari.
Hún er hins vegar í sumarleyfi þannig að Vísir beindi fyrirspurnum til staðgengils hennar, Árna Sigurjónssonar skrifstofustjóra. Hans svör eru skorinort:
„Ekki hafa komið til rannsóknar mál innan embættisins vegna þess að vín hafi verið tekið til einkanota úr vínlager,“ segir Árni. En vínbirgðastaða verður könnuð í þessari viku í framhaldi af fyrirspurn.