Newcastle hefur farið illa af stað í ensku úrvalsdeildinni og er aðeins með eitt stig í nítjánda og næstneðsta sæti. Pressan á knattspyrnustjóranum Steve Bruce er mikil en hann segist ekki hafa íhugað að stíga frá borði.
Bruce boðaði til liðsfundar á þriðjudaginn. Þar sýndi hann meðal annars hlaupatölur leikmanna sem mæltist misvel fyrir.
Ekki tók betra við á æfingu Newcastle þar sem Dwight Gayle og Greame Jones rifust heiftarlega. Á endanum þurfti Jamal Lascalles, fyrirliði Newcastle, að stíga í milli.
Gayle er ósáttur með lítinn spilatíma hjá Newcastle. Hann framlengdi nýverið samning sinn við félagið.
Jones var ráðinn aðstoðarþjálfari Newcastle um mitt síðasta tímabil og kom með ferska vinda inn í liðið. Newcastle endaði tímabilið vel og lauk keppni í 12. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Jones er einnig í þjálfarateymi Gareths Southgate hjá enska landsliðinu.
Newcastle tekur á móti Leeds United í fyrsta leik 5. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld.