Menntamálaráðuneyti Talibana hefur gefið út að nám muni hefjast aftur næsta laugardag fyrir drengi í sjöunda til tólfta bekk miðskóla.
„Allir karlkyns kennarar og nemendur eiga að sækja sínar menntastofnanir,“ kemur fram í tilkynningunni en ekki er heldur minnst á framtíð kvenna í kennarastéttinni.
Eru tilmælin sögð minna á aðferðir Talibana á tíunda áratugnum þegar komið var í veg fyrir að stelpur stunduðu nám án þess að banna þeim það með formlegum hætti.
Búið að loka kvennamálaráðuneytinu
Nýja tilskipunin gerir Afganistan að eina ríkinu í heiminum sem bannar stúlkum að sækja sér framhaldsmenntun og er sögð frekari staðfesting á því að ný stjórn Talibana hyggist þrengja að réttindum kvenna í landinu.
Nýverið var greint frá því að byggingin sem hýsti kvennamálaráðuneyti síðustu ríkisstjórna sé nú á forræði ráðuneytis sem kennir sig við eflingu dygða og að aftra lastafullu líferni.
Fulltrúar sama ráðuneytis sáu um að refsa konum á tíunda áratugnum með ofbeldisfullum hætti ef þær sáust opinberlega án þess að vera í fylgd karlmanns eða brjóta íhaldssamar reglur um klæðaburð.

Óttast afturhvarf til fortíðar
The Guardian hefur eftir Kate Clark, framkvæmdastjóra Afghanistan Analysts Network, að yfirlýst stefna Talibana á tíunda áratugnum hafi verið að opna kvennaskóla aftur þegar öryggisaðstæður leyfðu. Aldrei varð af því í stjórnartíð þeirra.
Clark segir að einhverjar stelpur hafi stundað nám í heimahúsum eða í litlum skólum sem hafi verið starfræktir af góðgerðasamtökum en því hafi ávallt fylgt mikil áhætta að kenna stúlkum.
„Sá ótti var alltaf fyrir hendi að skólunum yrði lokað eða kennarar handteknir og barðir. Og það gerðist,“ segir Clark sem starfaði í Afganistan þegar landið var síðast undir stjórn Talibana.
Menntun kvenna jókst eftir að Talibanar voru hraktir frá völdum árið 2001 og sömuleiðis hlutur þeirra í áhrifastöðum.
Talibanastjórnin hefur lofað bót, betrun og mildari stjórnarháttum að þessu sinni og meðal annars lýst því yfir að réttindi kvenna verði virt.
Sameinuðu þjóðirnar óttast þrátt fyrir það um stöðu mannréttinda og réttindi kvenna í Afganistan eftir valdatöku þeirra í ágúst. Fjölmargir hafa reynt að flýja landið á síðustu vikum.