Stjórn KSÍ sagði af sér í lok síðasta mánaðar eins og hún leggur sig skömmu eftir að Guðni Bergsson sagði af sér sem formaður. Afsagnirnar komu í kjölfar mikillar samfélags- og fjölmiðlaumræðu um ofbeldisbrot leikmanna íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu.
Umræðan hófst eftir að Þórhildur Gyða Arnarsdóttir steig fram og greindi frá ofbeldi sem hún hafði orðið fyrir af hálfu leikmanns landsliðsins. Ástæða frásagnarinnar var sú að Guðni Bergsson sagði í Kastljósi á RÚV að KSÍ hafi ekki borist formlegar tilkynningar um kynferðisofbeldi, sem Þórhildur sagði ekki satt, mál hennar hafi komið inn á borð sambandsins.
Eftir að stjórnin sagði af sér boðaði hún til aukaárþings KSÍ sem fer fram laugardaginn 2. október næstkomandi. Þar verður kjörinn nýr formaður og kosið í stjórn á nýjan leik. Hávær krafa hefur verið uppi um að jafna kynjahlutfall í stjórn sambandsins. Í fráfarandi stjórn sátu tvæor konur en á annan tug karla.
Það stefnir allt í að Vanda Sigurgeirsdóttir verði næsti formaður sambandsins en hún er sem stendur eina manneskjan í framboði.
Þá eru sex í framboði til stjórnar: Guðbjörg Fanndal, Gullý Sig, Ásgrímur Helgi Einarsson, Helga Helgadóttir og Þóroddur Hjaltalín (í varastjórn) hafa öll gefið kost á sér.
Hér að neðan má sjá tilkynningarnar sem Gullý og Guðbjörg Fanndal sendu frá sér.
„Ég hef ákveðið að bjóða mig fram í stjórn KSÍ þegar kosið verður á aukaþingi þess laugardaginn 2.október næstkomandi. Ég er fædd og uppalin í Garðinum (Suðurnesjabæ) og kem frá mikilli fótboltafjölskyldu. Ég hef kynnst fótboltanum frá öllum hliðum fótboltans í gegnum Knattspyrnufélagið Víðir Garði alveg frá barnæsku. Hef verið leikmaður, þjálfari, stjórnarmaður, formaður, foreldri og margt fleira. Ég legg mikinn metnað í það sem ég tek mér fyrir hendur og tel mig geta nýtt krafta mína fyrir KSÍ,“ segir Gullý á Facebook-síðu sinni.
„Ég hef ákveðið að bjóða mig fram í stjórn KSÍ á komandi aukaþingi 2. október. Fótbolti hefur verið hluti af öllum mínum þroska skeiðum, frá því að vera iðkandi í stjórnsetur og allt þar á milli. Fótbolti hefur veitt mér gleði og ég hef metnaði í að gera betur, því vil ég leggja mitt að mörkum til að styrkja ímynd KSÍ. Saman eru við sterkari og því þarf knattspyrnuhreyfingin í heild sinni að standa saman á þessum tímamótum. Gleði og hamingja,“ segir Guðbjörg Fanndal í færslu á Facebook-síðu sinni.