Þetta kemur fram á vef landskjörstjórnar þar sem segir að hún muni koman saman klukkan 16 á föstudaginn. Er umboðsmönnum þeirra framboða sem buðu fram í kosningunum boðið að koma til fundarins, sem haldinn verður í húsnæði nefndarsviðs Alþingis í Reykjavík.
Úthlutun þingsæta er forsenda þess að nýtt þing geti komið saman en deilur hafa komið upp um framkvæmd kosninganna í Norðvesturkjördæmi. Landskjörstjórn hefur til að mynda gefið út að henni hafi ekki borist staðfesting um fullnægjandi meðferð kjörgagna í kjördæminu.
Greint var frá því í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag að svo gæti farið að þing komi saman áður en ríkisstjórn hefur verið mynduð til að leysa hnútinn í Norðvesturkjördæmi.
Reikna megi með að flokkar sem náðu kjöri á Alþingi hefji nú vinnu við að tilnefna menn í bráðabirgðakjörbréfanefnd, sem undirbýr störf hinnar eiginlegu kjörbréfanefndar, sem svo tekur afstöðu til lögmætis kosninganna í Norðvesturkjördæmi.