Magnús Davíð Norðdahl frambjóðandi Pírata í Norvesturkjördæmi lagði formlega fram kæru vegna þess hvernig staðið var að vörslu kjörgagna og endurtalningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi og afhenti dómsmálaráðuneytinu og starfandi forseta Alþingis kæruna í dag.
„Við teljum að hver og ein málsástæða sem tilgreind er í kærunni, hvað þá heldur allar saman, eigi að leiða til þess að það beri að ógilda kosningarnar í Norðvesturkjördæmi og kjósa að nýju,“ segir Magnús.
Við endurtalningu atkvæða misstu fimm jöfnunarþingmenn sem náð höfðu kjöri eftir fyrri talningu í Norðvesturkjöri sæti sitt og fimm aðrir frá sömu flokkum fóru inn eftir seinni talninguna. Willum Þór Þórsson starfandi forseti Alþingis segir stöðuna erfiða.
„Þetta er bara vont mál en undirbúningskjörbréfanefndin hefur starfað áður og það er ýmislegt sem þarf að fara yfir og við sinnum bara þeirri ábyrgð og skyldu okkar,“ segir Willum.
Yfirkjörstjórn í Norðvesturkjördæmi sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem hún harmar þá stöðu sem komin væri upp varðandi störf hennar og biður frambjóðendur og kjósendur afsökunar. Ekki sé við talningarfók og starfsfólk að sakast sem unnið hafi störf sín af alúð.
Magnús Davíð segir mikið undir varðandi traust á kosningakerfinu í málinu.
„Og það er auðvitað bagalegt að viðskulum vera í þessari stöðu en ég trúi því og treysti að þingmenn muni skoða þetta mál af fullri alvöru og sanngirni og komast að réttri niðurstöðu í málinu,“ segir Magnús.
Það eykur enn á flækjustig málsins að kærufrestur vegna kosninganna er fjórar vikur.
Guðmundur Gunnarsson, einn þeirra frambjóðenda sem var inni á þingi eftir upphaflega talningu en ekki endurtalningu hyggst kæra framkvæmd kosninganna. Þetta segir hann í samtali við Ríkisútvarpið.
Nú er það á borði nýkjörins Alþingis að staðfesta niðurstöðu kosninganna eða skera úr um að þær hafi verið ólögmætar.
Fréttin hefur verið uppfærð.